First Lego League

Keppnislið STEM-Húsavík
Keppnislið STEM-Húsavík

First Lego League er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim. First Lego League eða FLL er afrakstur samstarfs milli FIRST® og LEGO® Group. Árið 1998 tóku Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group saman höndum og stofnuðu FIRST LEGO keppnina, öflug keppni sem býður börnum upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám um leið og þeim er hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem hafa má af vísindum og tækni. First Lego League Challenge, sem er fyrir ungmenni á aldrinum 10-16 ára, hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005.

Í hverju liði eru 4-10 liðsmenn og a.m.k. einn fullorðinn leiðbeinandi. Hvert lið:

  • hannar og forritar LEGOþjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakapphlaupi.
  • tekur þátt í nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast viðfangsefni (þema) hvers árs.
  • byggir upp góðan liðsanda og keppnisanda.

Tilgangur First Lego League (FLL) er að bjóða ungu fólki að taka þátt í spennandi verkefnum sem:

  • skapa færni í vísindum og tækni
  • örva nýsköpun
  • byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni

 

Fimm nemendur úr Borgarhólsskóla tóku þátt í keppninni síðastliðna helgi en forritunarklúbbur STEM Húsavík í samstarfi við FabLab Húsavík bjóða upp á þátttöku í First LEGO League keppninni. Liðið hét Team Starfish og skipaði þriðja sæti í flokknum besta liðsheildin.

Nýsköpunarverkefni hópsins fólst í að hanna almenningsruslatunnur sem lokast sjálfkrafa þegar 2/3 hluti þeirra er fylltur til að koma í veg fyrir að rusl fjúki úr þeim, auk þess sem sérstakur skynjari nemur þegar ruslatunna er full og sendir boð í áhaldahús. Þar kemur upp ljós sem sýnir hvaða ruslatunna er orðin full og er þá hægt að halda ruslatunnum bæjarins hreinum. Guðný Ósk Agnarsdóttir, kennari við skólann er einn af leiðbeinendum liðsins.

Til hamingju krakkar.