Laxárskóli

Dagana 28...
Dagana 28. - 30. ágúst síðastliðinn fóru nemendur úr 6. og 7. bekk Borgarhólsskóla í Laxárskólann.
Nemendur lögðu af stað frá skólanum kl. 8:15 og óku með rútu að Hraunsrétt sem er í landi Hrauns í Aðaldal.
Þetta var mjög skemmtileg ferð þar sem námið snérist ekki bara um bækur, heldur var unnið í anda útikennslu, þar sem nemendur lærðu með því að upplifa, snerta, og skynja.
Þegar nemendur komu á staðinn var skipt í hópa með það að leiðarljósi að 7. bekkingar ynnu með 6.bekkingum og gætu verið þeim til aðstoðar, því þeir voru jú búin að fara í Laxárskólann áður.
Helmingur nemenda fór niður að Laxá þar sem þau unnu við ýmsar rannsóknir sem tengdust ánni, þau veiddu m.a. urriða og tóku sýni til að geta skoðað smádýrin.
Þeir nemendur sem ekki fóru niður að ánni unnu sín verkefni út frá heimastöð, þau lærðu að kveikja eld og umgangast hann, lærðu skyndihjálp og unnu verkefni tengd umhverfinu.
Í hádegishléinu fengu allir nemendur pylsu til að hita yfir eldinum en síðan var skipt um stað, þeir sem höfðu verið við eldinn fóru niður að ánni og öfugt.
Þegar allir höfðu fengið að prófa allt var haldið heim og virtust nær allir vera ánægðir með þessa tilbreytingu á námi, sumir voru reyndar blautir eftir að hafa dottið í ána, en það er líka upplifun út af fyrir sig.

Athugasemdir