Laxárskólinn 2007

Dagana 28...
Dagana 28. - 30. ágúst næstkomandi munu nemendur í 6. og 7. bekk Borgarhólsskóla stunda útinám við Laxárskólann.
Nemendur eiga að mæta vel búnir í skólann kl. 8:15 og fara síðan með rútu að Laxá í landi Hrauns í Aðaldal. Þar munu þau nema í anda útikennslu fram eftir degi og líklega koma í bæinn um kl.15:00
Allir nemendur þurfa að nesta sig fyrir daginn og mæta í stígvélum, með hlý föt og regngalla. Æskilegt er að hafa meðferðis aukaföt ef þeir detta í ána.
Forsaga
Haustið 2004 kynnti Hermann Bárðarson hugmynd sína að rannsókna- og menntunarstofnun sem hefði það hlutverk að virkja náttúrurík svæði í Þingeyjarsýslum sem þekkingaruppsprettu fyrir öll menntunarstig. Vorið 2006 var farið að vinna að þessari hugmynd innan Þekkingarseturs Þingeyinga og Náttúrustofu norðausturlands í tengslum við Hermann og stefnt var að því að bjóða nemendum í Borgarhólsskóla og Hafralækjarskóla í ferð að Laxá í Aðaldal til að kanna fiska og annað lífríki árinnar. Þetta verkefni fékk heitið Laxárskólinn og var fyrsta ferð skólans farin með nemendur í 6. bekk í Borgarhólsskóla og 6. Bekk Hafralækjarskóla í lok ágúst 2006.
Það haust tók Sigrún Þórólfsdóttir að sér að vinna kennsluverkefni tengt Laxárskólanum og vorið 2007 leit vísir að heimasíðu skólans dagsins ljós. Heimasíðan http://www.laxarskolinn.is hefur verið í þróun í sumar og má finna á síðunni ýmiskonar verkefni, kennsluáætlanir og annað sem tengist námi við skólann, ásamt útlistun á útikennslu og öðrum fræðum sem skólinn byggir á.
 
En eins og áður er tekið fram munu sömu nemendur og í fyrra, þ.e. nemendur úr núverandi 7. bekk fara aftur í Laxárskólann í haust ásamt nemendum úr 6. bekk. Það að blanda eldri og yngri gefur aukna möguleika, þeir eldri og reyndari rifja upp með því að leiðbeina þeim yngri en þau yngri fá tækifæri á að læra af jafningja.

Athugasemdir