- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Borgarhólsskóli og Leikskólinn Grænuvellir vinna nú saman að þróunarverkefni sem ber nafnið Lítil skref á leið til læsis. Verkefnið er styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu og er sá styrkur liður í að innleiða aðgerð tvö í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.
Verkefnið skiptist í tvo áhersluþætti. Samráð um nám og kennslu og foreldrafræðslu. Sérstök áhersla er á málörvun og læsi svo samfella skapist í þroska og námi barna.
Nemendur skólanna vinna sameiginlega með bækur og vinna verkefni í skiptiheimsóknum sem eru fjölbreytt og til þess fallin að auka málþroska og læsi þeirra. Læsi í bókum, umhverfi og myndum. Þemað fyrir áramót er skógur og umhverfi og lásu nemendur í báðum skólum bókina Leyniskógurinn. Unnið var með þau verkefni í heimsóknunum eins og áður sagði bæði í útkennslu, gegnum leik og stafavinnu.
Nú er komið að seinni áhersluþætti verkefnisins en það er foreldrafræðsla. Hún er sérstaklega hugsuð fyrir foreldra barna fædd 2018 og 2019 en það eru öll velkomin. Við munum fá þær Írisi Hrönn Kristinsdóttur og Önnu Sigrúnu Rafnsdóttur frá Háskólanum á Akureyri til að fræða okkur um málörvun og hvað foreldrar geti gert til að aðstoða börn sín. Þá ætlar Natasch Damen sjúkraþjálfi að fræða okkur um fínhreyfingar og þjálfun hennar.
Kennarar Borgarhólsskóla og Grænuvalla munu svo aðstoða foreldra á stöðvum þar sem þeir fá tækifæri til að prufa verkefnin.
Fræðslan var valin út frá punktum frá foreldrum sem svöruðu könnun í haust um hvaða þætti þeir vildu fá fræðslu um til að styðja við nám barna sinna og skólaskiptin.
Við vonumst til að sjá sem flesta á þessum fundi sem verður fimmtudaginn 7. nóvember kl 17:30-19:00 í sal Borgarhólsskóla.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |