- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í dag í Safnahúsinu á Húsavík. Fimm nemendur sjöunda bekkjar skólans komu saman og fluttu mál sitt fyrir gesti. Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki "keppni" í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.
Í fyrstu umferð voru lesnar Svipmyndir úr skáldsögunni Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson. Í annarri umferð höfðu lesarar val um hvaða ljóð eftir Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind þeir vildu flytja. Í lokaumferð fluttu nemendur ljóð að eigin vali.
Þátttakendur voru þau Arnrún Eva Guðmundsdóttir, sem varð í fyrsta sæti, Baldur Starri Egilsson sem varð í því þriðja, Ísabella Anna Kjartansdóttir sem varð í öðru sæti, Karen Eva Einarsdóttir og Nína Fanney Karlsdóttir.
Sparisjóður Suður-Þingeyinga er helsti styrktaraðili keppninnar og þökkum við þeim kærlega fyrir samstarfið. Sömuleiðis Safnahúsinu á Húsavík. Öll sem lásu fengu bókagjöf, 100 kvæði eftir Þórarinn Eldjárn og viðurkenningarskjal frá skólanum. Fyrir verðlaunasæti hlutu nemendur peningagjöf.
Það eru sterk tengsl milli orðaforða og lesskilnings. Ein árangursríkasta leiðin til að efla orðaforða barna, og þar með málskilning, er aukinn bóklestur. Að tala við börnin okkar og lesa fyrir börnin okkar. Það er skammgóður vermir að nýta sér rafrænt afþreyingarefni til að skapa ró eða til að kveikja áhuga sem fer oft og gjarnan fram á ensku. Íslenskan er undirstaðan, saga okkar og menning, hið talaða mál með öllum sínum fögru hljóðum, sérkennum og framburði.
Við þökkum öllum lesurum og áheyrendum kærlega fyrir hátíðina í dag enda er mikill sigur að koma fram og lesa fyrir framan hóp af fólki.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |