Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar

Niðurstöður fyrir Borgarhólsskóla en ekki Borgarholtsskóla eins og er algengur misskilningur.
Niðurstöður fyrir Borgarhólsskóla en ekki Borgarholtsskóla eins og er algengur misskilningur.

Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Menntavísindastofnun innan Menntavísindasviðs Háskóli Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Niðurstöður eru birtar í mælaborði um farsæld barna, sem mennta- og barnamálaráðuneyti birti á haustmánuðum 2023.

Markmið verkefnisins er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungmenna og gera niðurstöður aðgengilegar til að styðja við stefnumótun aðila sem koma að þjónustu og umönnun barna og ungmenna. Grundvöllur verkefnisins liggur einnig í að skapa aðstæður til snemmbærs inngrips og stuðnings við börn og fjölskyldur þeirra og styðja við innleiðingu löggjafar um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

Efnisflokkar rannsóknarinnar eru;

  • menntun,
  • heilsa og vellíðan,
  • öryggi og vernd,
  • þátttaka og félagsleg tengsl
  • lífsgæði og félagsleg staða.

Könnunin var lögð fyrir nemendur fjórða til og með tíunda bekkjar á tímabilinu 11. mars til 12. maí 2024. Niðurstöður má greina eftir kyni og árgöngum. Samanburður er annarsvegar við landið allt og skóla á Norðurlandi utan Akureyrar hinsvegar. Alls tóku 164 nemendur skólans þátt í könnuninni.

Í október fengu sveitarfélög og skólar skýrslur með niðurstöðum er varðar þau. Í nóvember hafa niðurstöður verið kynntar fyrir starfsfólks sveitarfélaga. Nýlega voru niðurstöður í skólanum kynntar á fundi starfsfólks skólans. Hægt er að skoða mælaborð um farsæld HÉR og heimasíðu ÍÆ sömuleiðis HÉR.

Rýnt í niðurstöður

Menntun og skóli

Þegar rýnt er í niðurstöður fyrir Borgarhólsskóla kemur margt áhugavert í ljós bæði hvar má finna tækifæri til úrbóta og jákvæðar niðurstöður hér. Við rýni í niðurstöður þarf að setja hlutina í samhengi. Um þriðjungur nemenda virðist oft þreyttur í skólanum. Tæplega níu af hverjum tíu nemendum telja mikilvægt að leggja sig fram í námi. Eins og víðast hvar á landinu finnst stúlkum mikilvægara en drengjum að leggja sig fram í námi. Sömuleiðis lesa stúlkur meira en drengir. Nemendur á unglingastigi upplifa minna álag í námi en gengur og gerist. Meðal yngri nemenda finnst aðeins um helmingi yngri drengja gaman í skólanum og eldri stúlkum líður betur í skólanum en drengjum. Engu að síður finnst stúlkum vera meira truflandi hávaði í kennslustundum en drengjum. Unglingsdrengjum finnst síður hlustað á hugmyndir þeirra eða tekið sé mark á þeim í skólanum.


Heilsa og vellíðan - öryggi og vernd

Þegar rýnt er í heilsu og vellíðan/öryggi og vernd segja um fjórir af hverjum tíu nemendum í sjötta til og með tíunda bekk finna fyrir kvíða vikulega eða oftar. Um 86% nemenda segjast vera við góða eða mjög góða heilsu og tæplega þriðjungur ánægð með lífið. Unglingsstúlkur virðast hreyfa sig minna en stúlkur á landsvísu og drengir meira en á landsvísu. Fleiri segjast leggja í einelti en upplifa einelti. Drengir í Borgarhólsskóla virðast síður lenda í slagsmálum en drengir á landsvísu. Líkt og á landsvísu upplifa stúlkur mun meira baktal en drengir og unglingsstúlkur upplifa frekar að þær séu skildar útundan. Þær upplifa frekar særandi ummæli og neteinelti en drengir.

Þátttaka og félagsleg tengsl - lífsgæði og félagslega staða


Þegar rýnt er í þátttöku & félagsleg tengsl/lífsgæði / félagsleg staða er ljós sjáanleg áhersla á hópíþróttir á svæðinu. Fjórir af hverjum fimm nemendum stunda íþróttir og segja nánast allir nemendur að þeir eigi góðan vin, einn eða fleiri. Það er jafnræði meðal kynja um íþróttaiðkun meðal yngri nemenda en dregur úr jafnræði eftir því sem nemendur eldast. Þá er hærri tíðni íþróttaiðkunar meðal unglinga í Borgarhólsskóla en á landsvísu. Þá segja sjö af hverjum tíu nemendum að þau geti talað við foreldra sína um áhyggjur, hlutfallið er lægra meðal yngri nemenda en eldri.

 

Eins og áður segir hefur starfsfólk fengið kynningu á niðurstöðum sem eru nú öllum aðgengilegar og finna má HÉR. Næstu skref er kynning fyrir foreldrasamfélagið og frekari greining og vinna með gögn meðal starfsfólks. Í dag birtust nýjar tölur um stöðu barna á Íslandi, sjá HÉR. Þar má greina; aukinn áhugi á heilsueflingu og hreyfingu, jákvæður árangur í andlegri heilsu og stafrænt öryggi og áskoranir vegna samfélagsmiðla. þá er vert að benda mikilvægi þess að vanda lestur og rýni í niðurstöðugögn, þessi sem önnur.