Skákkennsla í Borgarhólsskóla

Borgarhólsskóli hefur verið valinn einn af grunnskólum landsins sem fær styrk vegna verkefnisins “Skák í skólana” sem er samvinnuverkefni Skáksambands Íslands og Menntamálaráðaneytisins...
Borgarhólsskóli hefur verið valinn einn af grunnskólum landsins sem fær styrk vegna verkefnisins “Skák í skólana” sem er samvinnuverkefni Skáksambands Íslands og Menntamálaráðaneytisins.
 
Af því tilefni mun skákfélagið Goðinn sjá nemendum Borgarhólsskóla fyrir skákennslu og verður hún nemendum að kostnaðarlausu. Kennt verður einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 15:00 í allan vetur, um leið og hefðbundinni kennslu lýkur í skólanum. Kennslan mun fara fram í sal Borgarhólsskóla. Reiknað er með því að kennslustundin sé um 60 mínútur að lengd.
Kennslan verður í umsjá Smára Sigurðssonar og Hermanns Aðalsteinssonar frá skákfélaginu Goðanum.
 
Kennsla hefst miðvikudaginn 8. október og kennt verður til 29. apríl 2009.
Athugið að væntanlegir nemendur þurfa að kunna mannganginn.
Kenndar verða helstu byrjanir og varnir gegn þeim, auk annars þess sem nauðsynlegt er að kunna við taflborðið. Nemendur fá heimaverkefni (skákþrautir) sem þeir skila í næsta tíma. Nemendur þurfa ekki að hafa neitt með sér í skákkennsluna nema góða skapið.
 
Ef einhverjar spurningar vakna þá er hægt að hafa samband við formann skákfélagsins Goðans í síma 4643187 / 8213187 Hermann Aðalsteinsson eða með netpósti: lyngbrekka@magnavik.is
 
 
Íslandsmót barnaskólasveita verður haldið 6.-7. mars 2009 væntanlega í Reykjavík.
(Nemendur í 1.-7. bekk)
 
Íslandsmót grunnskólasveita verður haldið 4.-5. apríl 2009 væntanlega í Reykjavík.
(Nemendur í 1.-10. bekk)
 
Bæði þessi mót eru sveitakeppnir með 4 keppendum í hverri sveit. Heimilt er að koma með fleiri en eina sveit frá hverjum skóla.
 
Stefnt er á að Borgarhólsskóli sendi sveit til keppni í Íslandsmót barnaskólasveita og hugsanlega líka í Íslandsmót grunnskólasveita, ef tök eru á því.
 
 
 
                         
 
 
 
 
 Nokkur skákmót á næstunni:
 
Í nóvember á Fosshóli:                
15 mínútna mót skákfélagsins Goðans
Í desember á Fosshóli:                     
Hraðskákmót Goðans.
Í febrúar á Húsavík:                                            
Skólamótið í skák fyrir nemendur Borgarhólsskóla
Í apríl á Akureyri:        
Skákþing Norðlendinga í yngri flokkum
Í apríl á Húsavík/Akureyri:                      
Sýslumótið og kjördæmismótið
16.-19. Apríl, staðsetning óákveðin:                       
Landsmótið í skólaskák
Í maí á Húsavík:               
Hérðasmót HSÞ.                                                          
 
 
Eins og sjá má á þessari upptalningu þá eru fjölmörg skákmót í vetur sem nemendur í skákkennslunni geta tekið þátt í. Flest þeirra eru reyndar ekki fyrr en eftir áramótin.
 
Skákfélagið Goðinn getur útvegað töfl og skákklukkur á hagstæðu verði í gegnum skáksamband Íslands, fyrir þá nemendur sem það vilja. Skákklukka kostar 6000 kr og tafl + taflmenn kosta 1700 kr.
 
Til að efla áhuga og færni nemenda  þurfa forráðamenn helst að styðja börn sín og tefla heima ef tök eru á.
 
Markmiðið með skákkennslunni er að glæða áhuga á hollri íþrótt sem eflir vitsmuna og félagsfærni því skákin er góð til að þjálfa rökhugsun og þolgæði.
 
Hermann Aðalsteinsson.

Athugasemdir