Stútfullt Ólympíuhlaup ÍSÍ af metnaði

Það blés hressilega þegar ólympíuhlaup ÍSÍ for fram kringum skólann í gær. Hlaupið kallaðist áður Norræna skólahlaupið og hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla allt frá 1984 þegar það fór fyrst fram. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan.

Hringurinn var um kílómetri að lengd og nemendur höfðu 60 mínútur til að hlaupa eins marga hringi og þeir gátu. Þeir allra hörðustu hlupu þrettán hringi. Eftir hvern hring fékk hver nemandi stimpil. Þátttaka var reglulega góð og virkni nemenda til mikillar fyrirmyndar. Metnaður fyrir hlaupið var áberandi og umgjörð öll hjá íþróttakennurum til sóma. Samanlagður kílómetrafjöldi nemenda í hlaupinu var 1481 km en hringvegurinn um Ísland er 1321 km.

ÍSÍ gaf skólanum bolta og útidót handa nemendum að þessu tilefni og Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna mætti á svæðið. Að loknu hlaupi var þátttakendum boðið upp á kókómjólk í boði Mjólkursamsölunnar.

Unglingarnir hlýddu á fræðsluerindi hjá Lyfjaeftirliti Íslands um örvandi drykki, samfélagsmiðla og líkamsímynd. Við þökkum ÍSÍ kærlega fyrir komuna og að velja Borgarhólsskóla til að hefja verkefnið á landsvísu að þessu sinni.