- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
Börn bregða á leik, sparka í bolta, hlæja og gera heljarstökk á ærslabelgnum. Já, nýtt skólaár er hafið og skólinn iðar af lífi. Hér eru öll í mismunandi störfum og hafa sín hlutverk. Við erum öll hluti af skólasamfélaginu. Þórgunnur Reykjalín, skólastjóri, flutti ávarp í stiganum í upphafi skólaárs í anddyri skólans að vestanverðu, eða við gamla innganginn. Sá staður var gjarnan notaður fyrir hvers konar athafnir og samkomur á árum áður.
Þórgunnur bauð alla velkomna til starfa; foreldra, nemendur og starfsfólk. Hún nefndi ýmis formsatriði, líkt og að skólamáltíðir eru nú gjaldfrjálsar, að boðið er upp á ávaxtastund að morgni, og að skólinn sé bæði hnetu- og appelsínu-/mandarínulaus. Hún bað foreldra einnig að merkja föt barna sinna. Sömuleiðis minnti hún á umferðaröryggi á skólaleiðinni, en skólinn vinnur að því að breyta þeirri menningu að ökumenn keyri inn á skólalóðina, þar sem næg bílastæði eru við skólann.
Nýtt fólk, nemendur og foreldrar, bauð Þórgunnur sérstaklega velkomin, ásamt nýju starfsfólki; Örnu Ásgeirsdóttur, sem er nýr verkefnastjóri stoðþjónustu, og kennurunum Berglindi Pétursdóttur, Helgu Dagnýju Einarsdóttur, Hrannar Rafn Jónassyni og Valdísi Jósefsdóttur. Skráðir nemendur við skólann eru 282 við upphaf skólaársins, sem er svipaður nemendafjöldi miðað við undanfarin ár.
Þórgunnur sagðist hlakka til skólaársins; hér væri bæði eldmóður og kraftur. „Það eru tækifæri til að kanna nýjar hugmyndir, vinna að áskorunum og persónulegum vexti. Ekki bara námslegum vexti, heldur ekki síður félagslegum og tilfinningalegum. Hver dagur er nýtt ævintýri; sumir dagar verða krefjandi en það er einmitt við slíkar aðstæður sem við finnum okkar bestu og stærstu styrkleika, og þannig þroskumst við og eflumst.“ Hún vænti þess að allir sýni virðingu og kurteisi. „Við leggjum áherslu á virðingu, bæði í samskiptum við aðra og í sjálfsmynd okkar. Einelti er ekki liðið í skólanum og foreldrar eru hvattir til að ræða um mikilvægi vináttu og virðingar við börnin sín.“ Þórgunnur hvatti foreldra einnig til að halda góðum samskiptum við skólann og tilkynna það sem hefur áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun. Lestur heima er mikilvægur og foreldrar skulu stuðla að því að börn þeirra lesi daglega.
Áður en nemendur og foreldrar gengu í sínar umsjónarstofur, lokaði Þórgunnur ávarpinu með þessum orðum: „Við skulum skemmta okkur saman í vetur og vænta þess að öll séu að gera sitt besta.“ Skólaárið 2024-2025 er hafið.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |