Verkstæðisdagur

Verkstæðisdagur  fyrir jólin hefur verið haldinn með svipuðu sniði í skólanum frá 1987 og er einn af stóru dögunum í skólalífinu...
Verkstæðisdagur  fyrir jólin hefur verið haldinn með svipuðu sniði í skólanum frá 1987 og er einn af stóru dögunum í skólalífinu. Að þessu sinni , föstudaginn 5. desember,  var óvenju mikið lagt í daginn þó með þeim hætti að flest sem menn tóku sér fyrir hendur á verkstæðunum  var framleitt úr afgangs og  ódýru efni en hugmyndaflugið og sköpunarkrafturinn réði viðfangsefnum að mestu leyti. Notaður var afgangspappír, trjágreinar, niðursagaður trjáviður af skólalóðinni, glerkrukkur, slitnar skeifur og allt mögulegt sem afgangs er á heimilum og í skólanum. 23 jólaverkstæði voru starfrækt og mátti sjá marga efnilega og slynga handverksmenn á öllum aldri hjálpast að við að gera eigulega hluti. Starfsmenn skólans, nemendur og foreldrar leiðbeindu á hverju verkstæði.
Á þessum degi hafa allir frjálsa för um skólann og sjá mátti gleði í andlitum. Nemendur Tónlistarskólans spiluðu  jólalögin viðstöðulítið á Stjörnu, Mána og í salnum, eins söng Sólarkórinn úr 2. bekk í salnum þar sem nemendur 10. bekkjar seldu veitingar á vægu verði.  
Nemendur 8. bekkjar undir stjórn Ingólfs heimilisfræðikennara sýndu piparkökuþorp í heimilisfræðistofunni og gaf Bókaverslun Þórarins Stefánssonar húsbyggjendum  sem sköruðu fram úr verðlaun.  
Að venju kom gríðarlegur fjöldi gesta í heimsókn þennan morgun.
HV

Athugasemdir