Við annaskil

19...
19. janúar s.l. komu forráðamenn í skólann með börnum sínum og fóru yfir námsmat haustannar með umsjónarkennurum. Vert er að minna á það að námsmatið er ekki dómur heldur eingöngu gert til að foreldrar, nemendur og kennarar glöggvi sig á stöðunni og  stilli saman strengi sína í þeirri viðleitni að gera betur. Með því hugarfari eflum við nemendur best til dáða.  
Foreldrar geta gengið að námsáætlun vorannar í  Mentor. Upplýsingar fyrir foreldra um námsgengi, stundvísi o.fl.  eiga líka að vera aðgengilegar í Mentor. Ef foreldrar hafa ekki aðgangsorð að Mentor þurfa þeir að gera umsjónarkennara viðvart sem sendir þeim nýtt.
Á haustönn voru 250 nemendur af 330 að jafnaði í skólamötuneytinu.  Samkvæmt samningi við Fosshótel er umsamið matarverð reiknað tvisvar á ári samkvæmt vísitölu þ.e. 1. ágúst og 1. janúar. Náðst hefur samkomuleg við Fosshótel um að verðbreyting verði að þessu sinni 1. febrúar og ný verðskrá gefin þá út.
 
Í skólanum hefur jafnan verið reynt  að sýna ráðdeild í rekstri og svo verður áfram. Ný fjárhagsáætlun er í vinnslu hjá sveitarfélaginu og munu ráðamenn örugglega  beita sér af alefli að því að skerða þjónustu skólans sem minnst á þessum erfiðu tímum. Í upphafi árs höfum við í skólanum þegar gert áætlun um ýmsar sparnaðarleiðir. Í forföllum má búast við því að einstaka sinnum verði tímar felldir niður hjá eldri nemendum eða þeim fundin önnur verkefni. Það er því mikilvægt að hvetja nemendur  til að vinna sjálfstætt þegar tímar falla tímabundið niður því  oftast hafa þeir góðan  aðgang að skólasafninu og annarri vinnuaðstöðu í skólanum undir eftirliti starfsmanna skólans. Búast má við því að vinnutilhögun annarra starfsmanna verði breytt tímabundið  þegar styttri forföll verða.
Minna verður um skólastarf sem starfsmenn skólans stjórna  utan dagvinnumarka á næstunni, má þar nefna  ferðalög, bekkjarkvöld og fundi á vegum skólans nema samkvæmt sérstöku samkomulagi við starfsmenn. Við þessar aðstæður reynir á samstarf heimilis og skóla. Foreldrar og starfsmenn þurfa að sýna velvild og skilning á aðstæðunum til að halda úti góðu samstarfi sín á milli og efla það eftir mætti, ekki síst nú á þrengingartímum því margt gott  má gera sem ekki kostar  peninga.  
Áfram  starfar félagsmiðstöðin Keldan af krafti  fyrir nemendur í  8. – 10. bekk en nemendaráð í samstarfi við umsjónarmenn Keldunnar drífur  starfið áfram (http//keldan.nordurthing.is). Foreldrar eru hvattir til að gefa þessari góðu starfsemi gaum og styðja hana eftir mætti.
 
Stefnt er að því að nemendur 7. og 10. bekkjar setji upp leikrit nú á vorönninni eins og jafnan áður og eru æfingar þegar hafnar. Margt áhugavert er á döfinni í öllum bekkjum skólans og eru foreldrar hvattir til að vera í góðu sambandi við kennara til að fá sem bestar upplýsingar.
 
HV

Athugasemdir